Leystur út með árslaunum

Kristján Haraldsson hættir störfum í sumar en heldur launum fram til júlí 2017.

skrifað 06. mar 2016
KristjanHaraldsson

Kristján Haraldsson orkubússtjóri heldur launum í eitt ár eftir að hann lætur af störfum. Viðar Helgason, stjórnarformaður Orkubúsins, segir að efnislega sé starfslokasamningurinn á þá leið Kristján fari í námsleyfi frá 1. júlí og haldi launum í 12 mánuði. Viðar segir að Kristján verði stjórn og nýjum orkubússtjóra innan handar á tímabilinu. Það liggur ljóst fyrir að Kristján kemur ekki til baka til starfa að loknu námsleyfi, eins og tíðkast þegar starfsmönnum er veitt námsleyfi. „Stjórnin ákvað að veita honum þetta leyfi að hans ósk,“ segir Viðar

Árslaun Kristjáns nema um 15 milljónum kr. Aðspurður í hvaða nám Kristján er að fara segir Viðar betra að hann svari því.

Um námsleyfi opinberra starfsmanna segir á vef fjármálaráðuneytisins:

„Starfsmaður sem unnið hefur í fjögur ár hjá sömu stofnun á rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsnám enda sé það í samræmi við endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun viðkomandi stofnunar eða starfsmanns sé hún til staðar. Í leyfinu skal starfsmaður halda reglubundnum launum sbr. skilgreiningu í gr. 12.2.6.

Starfsmaður ávinnur sér tveggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur aldrei orðið meiri en 6 mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Heimilt er að veita skemmri eða lengri námsleyfi á skemmra eða lengra árabili.“

Rétt er að taka fram að Orkubúið er ekki stofnun heldur opinbert hlutafélag, svokallað ohf, og í 100% eigu ríkisins.

smari@bb.is

BORFLEX SAMTENGI
FLOWTITE ÞRÝSTIPÍPUR
VATNSAFLSHVERFLAR